Ég er á lífi. Ég sef enn í hjólhýsinu og er að vakta féð. Guðrún Helga og Einar Breki eru búin að vera hér hjá mér síðan á sunnudaginn, 22. apríl. Það gengur mjög vel að hafa Einar Breka hér í sveitinni, og láta hann sofa í húsbílnum, og vagninum. Hann er náttúrulega bara snillingur þessi drengur. Ekkert vesen á honum. En jæja, þá með fréttir af sauðburði. Það lét ein þarna 13. apríl, tveim lömbum, eins og ég skrifaði síðast. Og það fór eins og ég spáði, að sú fyrsta bar 23. apríl. Það er búin að vera törn hér hjá okkur. 23. apríl fæddust 2 lömb 25. apríl 10 lömb 26. apríl 14 lömb 27. apríl 13 lömb 28. apríl 10 lömb 29. apríl 13 lömb 30. apríl 3 lömb 01. maí 2 lömb Það eru fædd 69 lömb, með þessum sem Sæla lét, og 64 á lífi. Eitt kom dautt, og við misstum 2 í fæðingu. Semsagt 5 lömb farin. Það eiga eftir að fæðast 19 lömb. Já og svo var einn gemlingur með snúið upp á legið. Það var orðið svo morkið, að þegar verið var að hjálpa henni, þá rifnaði það. Það þurfti að lóga henni, en lambið var skorið úr, og var sprelllifandi. Við settum það til gemlings sem var að bera, og hún tók það strax. Þannig að það fékk fósturmóður. Þessi sem við lóguðum hét Lukka, og var með 38 í ómvöðva í haust. Sorg að missa hana. Nú Brák, sem var þrílembd, gemlingur í fyrra, kom með fjögur núna. Það voru talin 3 í henni í febrúar, en útkoman var 4 stk. 2 hrútar og 2 gimbrar. Hún er undan Kalda, og hefur greinilega erft frjósemisgenin frá honum. Við erum búin að taka eitt lamb frá henni og venja undir eina sem missti lambið sitt. Brák með lömbin 4
Nú erum við að bíða eftir að Súla beri. Hún er með þrjú lömb, og er komin 149 daga. Hún hlýtur að bera í dag. Það eru 9 eftir að bera með henni. Sú síðasta ber 13. maí. Ég fer svo smátt og smátt að setja inn myndir frá þessum dögum hér. Það er farið að róast aðeins, þannig að ég hlýt að fara að hafa tíma til að vinna í myndum. Við setjum kindurnar og lömbin út á hverjum morgni, og hýsum þau svo yfir nóttina. Þetta gengur alveg ágætlega allt saman hér. Ég á eftir að sofa þónokkrar nætur hér, í viðbót. Flyt ekki heim á næstunni. Öxlin er í alveg þokkalegu ástandi. Samt altof rólegur bati, en hann kemur vonandi. Jæja þangað til næst.