Þetta er síðan hennar Birgittu Lúðvíks.


Flettingar í dag: 1484
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 727
Gestir í gær: 71
Samtals flettingar: 1076726
Samtals gestir: 58081
Tölur uppfærðar: 24.6.2024 23:45:27

Færslur: 2012 September

28.09.2012 22:43

Litli sæti hrússi

Þá eru nú kartöflurnar komnar í hús. Ég á bara eftir að flokka þær, og setja þær í poka. Svo fara þær í geymsluna, sem er svona heimagerð. Það er stór pappakassi fóðraður með froðuplasti að innan. Við vorum með kartöflur í þessum kassa,  síðasta vetur, og það tókst mjög vel að halda þeim góðum.

Vinnan á Möðruvöllum heldur áfram. Nú er búið að saga niður veggina sem voru fyrir haughúsinu. Þá er hægt að taka steinbitana, og moka út skítnum.

Nú er þetta orðið svona.

Við Þórður erum að fara að skemmta okkur, á morgun, með rosknum ráðunautum. Förum í smá ferðalag, borðum, og svo er dansiball á eftir. Já nú er spurning hvort ég komist í dansskóna. Ég hef ekki komist í þá í nærri ár. Ég held samt að ég komist í þá. Ég er orðin svo góð í fætinum.

Ég fór að gefa kindunum brauð í dag. Þær hópuðust að mér, og ég var á fullu við að opna brauðpokana, og gefa þeim. Þá var allt í einu einn lítill sem ýtti við mér. Það var hann Kobbi litli. Hann vildi sko líka fá brauð. Litli sæti hrússi. Svo mikið krútt.

Molinn kveður.
25.09.2012 20:04

Búin að heimta af fjalli :-)

Eins og ég skrifaði í gær, þá var ég að vona að gemlingurinn (móðir lambanna sem komu í gær), hefði verið tekin í misgripum, og það reyndist rétt vera. Hún er núna komin í Möðruvelli. Þá er allt komið, sem við eigum von á. Rjúpa kemur ekki því hún er dauð, og lambið undan Gímu er væntanlega líka dautt. Við erum heppin að fá þetta allt af fjalli. Ég er mjög ánægð.

Svo er á döfinni að fara vestur á Nes og kaupa nokkur lömb. Við erum búin að festa kaup á hrút og gimbur hjá Dísu kindavinkonu minni. Hlakka mjög til að fara þá ferð. Vonandi verður það í kringum 6. október :-)

Molinn kveður.


24.09.2012 23:21

Góðar heimtur

Jæja, þau skiluðu sér lömbin sem vantaði. Þau voru á Þverárrétt. Hafa komið í smöluninni í gær. Við erum að vona að móðir þeirra hafi líka verið á réttinni, og verið tekin í misgripum. Það kemur í ljós á morgun hvort hún hafi komið. Ef hún skilar sér, þá vantar ekkert, nema lambið undan Gímu, sem við teljum að hafi drepist snemma í sumar, því við sáum hana lamblausa í sumar. Já og Rjúpu, sem var afvelta, dauð, upp í fjalli, í byrjun september.

Það var verið að moka frá stafninum á fjárhúsinu, til að geta sagað veggina niður í haughúsið. Þá er hægt að keyra lítinn traktor inn og moka út. Það verður æðislegt þegar búið er að moka út. Robbi í Dunhaga er búinn að tæma vatnið út með haugsugu. Þegar þetta er allt búið, þá er hægt að fara að smíða fyrir kindurnar.

Ég fór og gaf kindunum brauð, tók myndir og klappaði nokkrum. Kobbi litli elti mig um allt, og vildi fá brauð og klapp. Það verður söknuður þegar hann fer á sl. húsið :-(

Það gengur vel að mynda lömbin, og raða þeim í samanburð, vor og haust. Ég set inn albúmið þegar ég er búin að vinna það.

Ég setti inn myndir. Þrjú albúm.

Molinn kveður.


23.09.2012 21:19

Kindur, kindur :-)

Annar gemlingurinn er búinn að skila sér af fjalli, með tvö lömb, en það vantar enn einn gemling með tvö lömb. Ég vona að hann fari að skila sér. Þórður og Helgi fóru  í göngur í gær, í Bægisárfjallið og inn á dal. Þeir komu með nokkrar kindur. Svo voru göngur líka í dag, í fjallinu og Þverárdal, og það kom heill hellingur af kindum niður.
Ég held samt að hún sé ekki í þeim hóp, en mikið væri það samt gott ef hún væri þar. Það á að rétta á morgun, og þá kemur það í ljós.

Við erum búin að vigta lömbin. Meðalvigtin var 45.3 kg.

Það er búið að slátra 37 lömbum, og meðalvigtin var 20,0 kg. Gerðin er 9,86 En ef við sleppum forystulömbunum, þá er gerðin 10,13  Fitan var 8,41

Við vorum heppin að vera ekki búin að missa kindurnar upp í fjall, úr hólfinu á Möðruvöllum. Í vonda veðrinu 10. sept. þá hafa nokkrir staurar brotnað undan veðrinu. Við þurftum að setja staura í staðinn og negla netið aftur á. Það hefur aldeilis verið rok. En nú er girðingin aftur orðin kindaheld.

Við smíðuðum rétt fyrir kindurnar, sunnan við fjárhúsin. Það rétt náðist að klára hana kvöldið áður en við rákum inn, til að senda í slátur. En það gekk, og það gekk vel að reka inn.

Vá hvað er gaman að geta bara keyrt í Möðruvelli, labba upp í hólf með nokkra brauðpoka og fá flest allar kindurnar æðandi á móti sér. Alveg tær snilld. Siggi og Júlli fóru með mér í gær, og þeir voru næstum því troðnir undir af kindunum, en þeim fannst mjög gaman að gefa brauð.
Ég þarf svo að fara að henda inn myndum.

Jæja nú er ég útskrifuð af sjúkrahúsinu. Ég útskrifaðist 17. sept. og hætti á sýklalyfjum 18. sept. Sárið er alveg að gróa, bara smá skán eftir. Ég held að ég sé alveg sloppin, það hefur allavegana ekki komið nein bólga þótt sárið sé lokað, og sýklalyfin búin.  Yndislegt alveghreint.

Molinn kveður.


17.09.2012 07:00

:-) :-) BROS

Nú er ég aðeins að ná mér niður af spenningnum. Flest allar mættar í Möðruvelli. Það vantar enn, 2 tvílembda gemlinga. Það á að vísu eftir að rétta smá, á Þverárrétt. Við eigum nú ekki von á þeim þar. Þær hljóta að hafa verið einhversstaðar með óþekkt, og verið skildar eftir. Það var alveg með ólíkindum hvað kindurnar voru óþekkar, og leituðu alltaf upp. Erfitt að reka þær, því þær voru alltaf stopp. Áreiðanlega að bíta gras. Enn ég held að þær skili sér fyrir rest. Fólkið er sko alveg búið að standa fyrir sínu. Það er frekar erfitt að ganga í snjó sem nær upp að mitti. Já og þurfa líka að moka göng fyrir þær, svo það sé hægt að koma þeim til byggða. Þau eiga öll hrós skilið fyrir þetta afrek. Það er sko ekki fyrir alla að geta þetta.

Lömbin eru svona fljótt á litið, ágætlega væn. Ég hlakka til að fara að stússast í fénu, vigta og láta stiga.

Við keyptum þrjár gimbrar, af Önnu Guðrúnu og Arnari í Fornhaga. Þær eru mjög flottar. Ég kem með myndir seinna, því ég náði ekki að mynda þær.

Nú er ég vonandi að útskrifast af sjúkrahúsinu í dag :-) :-) :-) Nú verður ákveðið hvort þetta sé orðið nógu gott þannig að ég þurfi ekki að koma daglega, eða bara ekki neitt. Vá hvað það er mikill léttir ef sú er raunin.

Myndir koma seinna :-)

Molinn kveður.


14.09.2012 22:12

Réttir

Jæja þá er nú búið að reka inn úr hólfinu hjá Helga á Syðri-Bægisá. Við fengum 3 fullorðna hrúta, 32 ær og 47 lömb. Þá eru komin 99 stk. á Möðruvelli.
ær 38,  lömb 58 og  hrútar 3  = 99 stk.
Okkur vantar  14 fullorðnar og 22 lömb.  Vonandi koma þær á morgun. Líklegast er eitt lamb dautt, því við erum búin að sjá eina í sumar, sem hefur ekki verið með lambið sitt. Það er hún Gíma. Ég var samt að vona að það hefði farið undan, en ekki drepist. Litla lambið sem ég sá með Klukku í sumar, er lambið hennar Míu, eins og mig grunaði. Það hefur farið undan strax. Það er svo lítið og krúttlegt. Ég tók nokkrar myndir og er búin að setja þær hér inn. Það var rigning, og ekki mikið hægt að taka myndir. Ég verð að bæta úr því á næstu dögum.

Molinn kveður.


14.09.2012 12:34

Gullið mitt eins árs

Jæja nú er spenningurinn í hámarki hjá mér. Það á að smala hólfið hjá Helga á Bægisá, á eftir, en þar eru mjög margar kindur. Hann opnaði fyrir þeim þegar þetta óveður skall á. Ég held að við eigum slatta þar. Ég hlakka svo til, að sjá hverjar mæta þar. Það verður rekið inn í réttina hjá Helga.

Í gær, þá fóru nokkrir góðir og smöluðu fé sem var fyrir ofan Þverá, og líka á Steinsstöðum. Við áttum 2 kindur þar og 3 lömb. Þau fóru í Möðruvelli.

Í dag á svo litla ömmugullið mitt eins árs afmæli. Ég verð að viðurkenna það líklegast, að ég er fyrir norðan en ekki sunnan eins og ég ætti að vera. Ég er nýbúin að knúsa gullið, og vonandi fer ég fljótlega að knúsa hann aftur. Það kemur svo í ljós, seinna, hvort hann fyrirgefur mér þetta, eða verður sár. Ef hann verður eins og amman, að hafa gaman af kindum, þá veit ég svarið við því. En hér er svo ein mynd af gullinu mínu. Til hamingju með eins árs afmælið elsku Einar Breki minn.


Einar Breki eins árs.


Molinn kveður.


13.09.2012 09:16

Snjó kindur

Hræðilegt og sorglegt ástand hér norðanlands. Verið að leita að kindum um allt.
Í gær fóru nokkrir góðir menn, og björguðu hóp af kindum úr snjónum, sem voru fyrir ofan Þverá. Þeir þurftu að troða snjóinn fyrir þær. Þær voru orðnar svangar greyin, því það er engin beit sem þær hafa í þessu. Það á svo að fara aftur í dag og reyna að bjarga fleiri hópum. Við áttum fjórar, með átta lömb í þessum hóp. Við fórum með þær á Möðruvelli. Þær voru afskaplega fegnar að komast á beit. Vonandi bjargast þetta allt, ALLSSTAÐAR.

Réttirnar verða eitthvað öðruvísi í ár. Bara reynt að bjarga því sem hægt er, en vonandi næst það nú. Ég setti inn myndir frá þessu í gær. Ég kom svo seint, að ég náði bara myndum af þeim þegar þeir voru komnir með hópinn að fjárhúsunum.

Við Þórður skelltum okkur suður 11. sept. Við fórum um morguninn og komum aftur heim um kvöldið. Ég þurfti að fara til læknis. Ég fór í tékk útaf öxlinni. Ég fékk alveg mjög góða skoðun. Hann var mjög ánægður með öxlina, og það sem ég get gert með hendinni. LOKSINS fékk ég góða skoðun á þessu veseni mínu. Ég er enn að brosa allan hringinn.

Löppin fær mig vonandi líka til að brosa allan hringinn, von bráðar.

Molinn kveður.
08.09.2012 22:58

7 dagar

Við fórum í Þorvaldsdalsréttir í dag. Okkar fé kemur ekki þar. Vorum bara að finna fílinginn. Okkar réttir verða næstu helgi. Ég tók nokkrar myndir þar, og setti inn.

Nú er ég að vinna í því, að taka myndir af lömbunum, og bera saman við myndir sem ég tók í vor.  Hér er sýnishorn af því.


Þetta er hrútur undan Ponsu, tekin 04.júní ´12

            Og þetta er sami hrúturinn. Myndin tekin 08.sept. ´12

Ég vona að ég nái myndum af þeim öllum.  Ég á nefnilega myndir af þeim öllum, teknar í vor.

Júlli, Siggi og Einar eru hér þessa helgi. Ég fór með þá í réttirnar í dag, og þeim fannst mjög gaman þar. Ég er mjög að passa fótinn minn. Hann er svona skítsæmilegur. Ekki meira en það.

Næsta helgi, úújeee hlakka til.

Molinn kveður.


06.09.2012 22:43

9 dagar

Við fórum kindarúntinn okkar, og sáum enga nýja í hópinn. Ég var mjög spök og það mesta sem ég fór voru ca. 5 metrar, út úr bílnum. Ég passaði mig alveg rosalega. Svo sáum við hrafnager upp í hlíðinni, og Þórður fór uppeftir til að athuga hvað væri í gangi þar, og sá þá Rjúpu afvelta, dauða og hálfétna. Hún skilur eftir sig tvö lömb og sorgmæddan eiganda, sem er ég. Hún er frá Laugu í Hraunhálsi, Helgafellssveit. Ekki gaman að þessu.


10-034 Rjúpa

Við komum svo við hjá Helga og Röggu Möggu á Syðri-Bægisá, til að kíkja á Simma litla. Nú eigum við tvo kálfa hjá þeim, sem við tökum þegar þeir eru búnir á mjólkurskeiðinu.

Þetta er hann Simmi litli

Heilsan er ágæt. Fór í umbúðaskipti í dag og sárið er orðið dýpra en það var í gær. Er bara byrjuð upp á nýtt. Það þarf að gróa neðanfrá og upp :-(

Molinn kveður.


05.09.2012 20:30

10 dagar

Nú styttist í réttir.  10 dagar. Vááá ég fékk áfall í gær þegar læknirinn sagði mér að ég þyrfti að vera á sjúkrahúsinu í 10-14 daga. Ég horfði á hann, eða þá (þeir voru tveir) og sagði nei nú ert þú að grínast. ÉG HEF ENGANN TÍMA Í ÞAÐ sagði ég. Hann horfði á mig og sagði hvað ert þú að fara að gera ?  Ég sagði honum að ég væri að fara í réttir og mætti ekkert vera að þessu. Þeir litu hvor á annan og hristu hausana og hlógu. Svo sagði hann, svona er þetta bara litla mín.
Svo kom hann á stofugang í morgun og horfði á mig og sagði, þú ert heppin, þú mátt fara heim í dag, eða er það ekki það sem þig langar til að gera ? Ég brosti og sagði réttirnar eru ekki fyrr en aðra helgi, en ég hef ekkert á móti því að fara heim í dag. Þannig að nú er ég komin heim, en verð með annan fótinn á sjúkrahúsinu í plokk og umbúðaskiptingu. Ég þarf að fara á hverjum degi eins og ég þurfti. Ég er á sterkum sýklalyfjum sem eru sem betur fer í töfluformi en ekki í vökvaformi. Æðarnar þoldu ekki þetta sterka lyf. Þær bólgnuðu upp undan því. 10 stungur á þessum fjórum dögum. Nú er komið aftur ca. eins sentimetra gat ofaní sárið, sem var alveg við það að gróa á fimmtudaginn. Það er einhver pollur (gröftur) undir ylinni, og líka undir sárinu. Ef þetta þornar ekki upp með þessum lyfjakúr, þarf að skera í ylina og í sárið. Þeir ætla að sjá til með þetta allt. Sjá hvernig lyfið tæklar þetta. En nóg um þetta væl mitt.

Nú á ég engar nýjar myndir af kindunum, því ég hef ekki farið neinn rúnt.

Ég á hinsvegar mynd af Smyrli, sem af einhverjum ástæðum kom sér inn í hlöðuna á Möðruvöllum, og var þar í sjálfheldu, eða sko komst ekki út.


Hann flaug svo út þegar Þórður opnaði fyrir hann.

Molinn kveður.


  • 1


clockhere

Nafn:

Birgitta Lúðvíksdóttir

Farsími:

820-7756

Afmælisdagur:

23. júlí, 1962

Heimilisfang:

Möðruvellir 3

Staðsetning:

Hörgársveit

Um:

Áhugamanneskja um sauðfjárrækt. Er með kindur á Möðruvöllum í Hörgársveit

Einar Breki, kom í heiminn

atburður liðinn í

12 ár

9 mánuði

10 daga

Haukur Nói, kom í heiminn

atburður liðinn í

9 ár

11 mánuði

12 daga

Birgitta Ósk, kom í heiminn

atburður liðinn í

2 ár

5 mánuði

10 daga

Tenglar