Ég er enn á lífi. Það hefur reynst erfitt að fá tíma til að setja eitthvað hér inn. Alltaf nóg að gera. Ég hef þó verið að taka myndir af lömbunum, og ég er búin að setja hér inn tvö albúm af þeim 100 fyrstu. Ég vonandi hef tíma fyrir eitt albúm á morgun. Myndirnar eru teknar á mismunandi tíma, þannig að sum lömbin eru ung, en önnur orðin stálpuð.
En já það er búið að vera nóg að gera. Það eru allar af okkar gamla stofni bornar. Ef við hefðum ekki keypt fé, þá væri sauðburður hjá okkur búinn. En hann verður út maí. Þá fæ ég líka að vera lengur í sveitinni
Núna eru 11 gemlingar og 13 fullorðnar eftir að bera, og það eru komin 166 lömb á lífi.
Við höfum fengið alltof mikið af dauðum fóstrum með lömbunum. Það er þó aðalega í þrílembunum sem það hefur gerst. Það eru farin 17 allt í allt, þá með þessum dauðu fóstrum og svo þessar sem létu. Við vitum ekki ástæðuna fyrir þessu, en fóstrin voru öll á svipuðu róli með stærðina. Þetta er pæling 
Við fengum eitt agnarsmátt lamb. Það er frekar sperrt. Vonandi lifir það.
Við höfum þurft að hýsa á nóttunni. Það hefur verið frekar kalt, og svo hefur líka verið rigning. En við þurfum nú ekki að kvarta. Það er miklu verra ástand víða.
Það er nú ekki lystugt fyrir féð að éta heyið með allan þennan flota af lömbum í garðanum, skítandi og mígandi í heyið. En það er ekki við þetta ráðið.
Við erum með tvær krær fyrir flest allt lambféð. Það er ótrúlegt hvað lömbin, já og ærnar læra á þetta. Það er mikill söngur þegar við rekum inn, og setjum út, en svo eftir svona klukkutíma, þá er allt komið í ró. Lömbin og mæðurnar búin að finna hvort annað.
Það fer að nálgast mánuð, sem ég er búin að búa í hjólhýsinu góða. Bara yndislegt.
Molinn kveður.