Jæja þá er nú komið að því að ég skrifi eitthvað hér inn. Það er búið að vera mikið að gera í sauðburði og ekki hægt að hanga neitt í tölvunni. En núna er orðið mun rólegra. Ég er að vísu búin að eyða tíma í að taka myndir af lömbunum, og þau eru orðin 200 á lífi í dag. Ég er búin að setja inn myndir af þeim ÖLLUM sem eru á lífi. Það hefur ekkert drepist, eða komið dautt fóstur, sem betur fer, síðan ég skrifaði síðast.
Við erum með nær allar lambærnar úti. Sumar fara ekkert inn, því þær eru komnar í fjallshólfið og er gefið þar. Svo erum við með þær sem eru með yngstu lömbin hér heima við og þær fara út og inn að vild. Þeim er gefið inni.
Það eru bara þrjár eftir að bera. Einn gemsi og tvær fullorðnar. Við eigum eftir að fá 5 lömb, og vonandi lifa þau öll.
Veðrið er og hefur verið frekar leiðinlegt í maí. Í gær var borinn áburður á túnin, og veðrið var þolanlegt þá, en núna er mígandi rigning og rok. Svosem gott fyrir túnin að fá rigningu, en ekki fyrir lömbin.
Ég er enn í hjólhýsinu góða. Búin að búa í því í rúman mánuð, já og hef vaknað á tveggja tíma fresti allan tímann. Það verður skrítið að sofa heila nótt þegar ég flyt í bæinn aftur. Ég held að ég sé að slá metin okkar Þórðar í útilegunum hér á árum áður. Þá vorum við yfirleitt í útilegu allan júlímánuð.
Helgar strákarnir hafa komið og verið hér hjá mér um helgar. Yfirleitt svona tveir í einu, og það hefur gengið rosalega vel.
Ég ætla að fara að smella inn myndum við tækifærið. Ég er búin að setja inn myndir af öllum lömbunum eins og ég sagði, og svo setti ég inn myndir af nokkrum lömbum sem eru upp í fjallshólfi. Þau eru að verða svo stór og flott.
Ég verð að setja inn myndir af einni þreyttri (allavegana þreyttari en ég) haha
Molinn kveður.