Jæja loksins skrifa ég eitthvað hér inn. Ég er semsagt á lífi. Ég hef bara ekki haft tíma til að setjast niður og láta fréttir hér inn. Það er búið að vera MJÖG MIKIÐ að gera þetta vorið
Þetta er líklega fyrsti sauðburður sem endar ekki. Það er einn gemlingur eftir. Það var komið þónokkuð undir hana en er algjörlega horfið núna. Ég hélt á tímabili að hún ætlaði að losa sig við það, en hún hætti við það líka.
Þetta eru fyrstu lömbin sem fæddust í vor. Drottningin til vinstri, kóngurinn fyrir miðju og svo er þrílembingur sem fær mjólk úr pela. Hún kemur heim að fjárhúsum tvisvar til þrisvar á dag til að fá mjólkina sína, og skokkar svo aftur upp í fjallshólf.
Sauðburður gekk vel. Það voru talin 269 fóstur og það fæddust 269 lömb/fóstur. Það kom ein einlembd sem átti að vera tvílembd, það kom ein fjórlembd sem átti að vera þrílembd, ein kom með þrjú, sem átti að vera með tvö og svo bar einn gemlingur ekki sem átti að vera með eitt.
Á lífi eru 253 lömb.
Tvö dóu sem voru komin á ról, annað veiktist og hitt dó vegna þess að móðirin steig ofaná það og laskaði.
Þrjú dóu í fæðingu.
Þrjú fæddust dauð.
Átta voru fóstur.
Á lífi eru 122 gimbrar og 131 hrútar
Þau sem ekki lifðu voru, 10 hrútar, 3 gimbrar og 3 ekki vitað.
Radix 10-574 er farinn á sæðingastöð. Nú geta allir fengið lömb undan honum. Þetta er frábær og góður hrútur. Hann hefur gefið okkur væn og falleg lömb. Til eru all margar ær undan honum, bæði hjá okkur og öðrum og hafa þær reynst frjósamar og mjólkurlagnar.
Hann er með eftirfarandi einkunnir:
Fita: 110
Gerð: 102
Kjötgæði: 106
Mjólkurlagni: 115
Frjósemi: 111
Heildareinkunn 111
Radix var keyptur lamb, 2010, frá Hjarðarfelli á Snæfellsnesi
Hér eru öll ömmubörnin mín. Það var verið að ferma Kristófer Daða og þau mættu öll norður
Jökull Logi, Einar Breki, Árdís Marín, Ísabella María, Dagur Árni og Kristófer Daði. Ég er rík
Allir á leið í kindaleiðangur. Við fengum okkur göngutúr upp í fjallshólf til að kíkja á féð.
Hér eru þau öll með Siggu langömmu. Svo flottur hópur.
Þetta er hann Huginn. Hann er einsárs síðan í mars. Hann ætlar að búa hjá okkur í þrjá mánuði. Hann er yndislegur og góður þessi fallegi strákur. Hann er fatlaður og þarf að fara í sjúkraþjálfun þrisvar í viku. Ég verð i fríi frá Búgarði þangað til 1. september. Ég veit að þetta á eftir að ganga vel hjá okkur
Mér finnst þessi mynd mjög flott. Hér eru þær Snoppa og Sæla að klóra sér, mjög samtaka.
Hér er Brák með lömbin sín þrjú af fjórum. Hún er búin að eignast 14 lömb á 4 árum. Þegar hún var gemlingur þá var hún þrílembd og öll komu lifandi af fjalli. Tveggjavetra var hún fjórlembd og öll lifðu og komu lifandi af fjalli. Þriggjavetra þrílembd og öll lifðu og skiluðu sér öll af fjalli. Núna í vor var hún með fjögur og eitt kom dautt. Við sáum svona ca. 5 dögum áður en hún bar, að hún rann til og datt greyið. Þá hefur lambið líklegast drepist í henni.
Ég setti inn nokkrar myndir um daginn.
Molinn kveður.