Ég fór kindarúntinn, núna seinnipartinn í dag. Mikið var ég heppin að fara akkúrat núna, því Fjára lág afvelta. Ég náði að bjarga henni. Það er ekki í fyrsta skiptið sem henni er bjargað svona. Hún lág líka afvelta í vor, sama dag og við slepptum á fjall. Vonandi nær hún að komast af fjalli á lífi.
Nú er talan komin í 25 kindur, því ég sá eina í viðbót. Það var hún Brák. Brák er gemlingur sem var þrílembd í vor. Hún gengur með tvær gimbrar, en hrúturinn var tekinn undan og vaninn undir aðra kind. Ég er mikið búin að reyna að sjá hana í sumar, og hefur ekki tekist fyrr en núna. Og núna á ég eftir að sjá 18 lömb af 62. ÆÐISLEGT. Það styttist í réttirnar.

Hér er Brák með lömbin þrjú, í vor.

Þetta er þrílembdi gemlingurinn, Brák, með gimbrarnar sínar. Hrúturinn var vaninn undir aðra.
Gimbrarnar komu til mín og ég gat klappað þeim. Þær eru gæfar. Þær fengu allar brauð, og voru mjög ánægðar með það.
Jæja þá er það slökun þessa helgi.
Molinn kveður.