Þá er nú loks tími til að setjast smá niður, og setja eitthvað hér inn.
Staðan er þannig að það eru 51 bornar, og af þeim létu tvær, einn gemlingur einu lambi og ein fullorðin tveim lömbum. Svo var einn gemlingur sem lambið náðist ekki úr, og þurfti að aflífa hann. Lambið var ekki á lífi. Það dóu svo tvö lömb, annað í fæðingu og hitt daginn eftir. Við erum í rauninni búin að missa þrjú lömb og einn gemling. Tvær þrílembur eru búnar að koma með eitt fóstur hvor, þannig að þær eru bara með tvö lömb. Þau hafa drepist í byrjun mars, trúlega. Þannig að það eru farin 5 fóstur og 3 lömb. Það eru 87 lömb á lífi. Þetta er staðan kl. 13 í dag.
Hann er að verða svo sprækur litla greyið sem svaf í hjólhýsinu hjá mér. Hann hefur stækkað og er farinn að vera ákafur á spena hjá mömmu sinni, en hún lætur sig ekki og vill hann ekki. Við verðum líklegast að venja hann undir aðra sem lætur ekki svona við hann.
Slenja gemlingur, (fjórlembingur undan Brák) bar í gær tveim hrútum. Það er mjög mikill stærðarmunur á þeim. Ég var að reyna að taka mynd af þeim sem sýnir muninn, en það tókst nú ekki vel. En hér eru þeir greyin litlu. Þetta er minnsta lambið sem fæðst hefur í vor hjá okkur.
Ekki fengum við Einar Breki og Guðrún Helga langan tíma saman hér í sveitinni. Þau sváfu tvær nætur hér, en svo veiktist elsku litla gullið mitt, þannig að þau þurftu að flytja sig heim á Akureyri, og voru þar alla vikuna sem þau ætluðu að vera hér. Nú eru þau farin suður, og misstu af sauðburðinum. Við sem vorum farin að hlakka svo til að eyða þessum góða tíma saman hér í sveitinni.
Hér er Einar Breki að spjalla við Dúlla litla.
Ég vona að ég verði duglegri að skrifa fréttir hér inn, en það hefur ekki verið mikill tími til þess hingað til.
Mér líður mjög vel í hjólhýsinu mínu. Ég er búin að gista í 14 nætur þar, og er ekki nærri því hálfnuð 


Molinn kveður.