Það er langt síðan ég hef skrifað hér inn, úpps. Ég hef afsökun fyrir því, það er svo mikið að gera hjá okkur þessa dagana.
Við tókum veturgömlu ærnar inn, 23. október, og þær voru klipptar 25. okt.
Við tókum eldri ærnar inn 24.okt, en þær fengu að vera úti á daginn fyrst um sinn. Það er búið að klippa hvítu ærnar og hrútana, en enn á eftir að klippa dökku og mislitu ærnar. Líklegast verða þær klipptar næsta mánudag. Við höfum sett óklipptu ærnar út, meðan við erum að gefa á garðann svo heyið spilli ekki ullinni meira en orðið er vegna inniveru.
Ásetningurinn okkar í vetur eru:
6 hrútar, einn lambhrútur, þrír veturgamlir og tveir eldri.
33 gimbrar
49 veturgamlar
40 tveggjavetra
31 eldri en tveggjavetra
Svo erum við með 9 smálömb. Af þeim eru 4 sumrungar.
Þannig að það eru 168 hausar.
Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir sprautaði lömbin gegn garnaveiki, 5.nóv.
Við erum líka með 4 kálfa, tvo ársgamla og tvo þriggja mánaða.
Við eigum líka 7 hænur og þær eru byrjaðar að verpa. Fyrsta eggið kom 31. október
Fyrsta eggið
Við drifum okkur í að smíða varpkassa fyrir þær. Við eigum bara eftir að setja hann upp á vegginn.
Simmi að moka út úr miðhúsinu, 11.okt. Hann mokaði út úr nyrsta húsinu deginum áður, eða 10.okt. Svo mokaði hann út úr syðsta húsinu, 2. nóv. Það er svo gott þegar þetta haust verk er frá.
11. okt. Simmi að dreifa skít
Við Þórður förum alltaf í fjárhúsin og gefum áður en við förum í vinnu á morgnana. Einn morguninn (31.okt.) er hægt að segja að við höfum lent í djúpum skít. Einn af sex hrútunum okkar var kominn niður í haughús. Það hafði einn bitinn farið á hliðina og við það hafa grindurnar losnað og opnast niður. Nú var farið í það að reyna að ná honum upp. Ég fór niður (í stígvélum) og reyndi að ná hrútnum. Hann gerði tilraun til að renna í mig, og ég var ekki alveg tilbúin í það að steypast afturábak ofan í ca. 40 sm. skítavatn sem var þarna. Þórður ákvað þá að fórna sér í það, þótt hann væri bara í skóm, en ekki stígvélum. Hann fór niður og skórnir fylltust af sulli
Hrúturinn renndi í hann, en Þórður stóð það af sér og gómaði hann. Við lyftum honum svo upp og löguðum grindurnar, kláruðum að gefa og drifum okkur í sturtu. Við vorum ekki nema 5 mín. of sein í vinnu þennan morgunn
Skórnir hans fengu líka sápubað.
Týri er nýbúinn að uppgötva að sleikja eyrun á kálfunum. Þeim finnst mjög gott þegar hann gerir það. Hann er orðinn svo frakkur að hann fer niður í kró til að sinna þessu verki. Nú á hann bara eftir að uppgötva það að sleikja kindurnar í framan. Yfirleitt finnst kindunum það gott. Virkar eins og þegar maður klappar þeim
Við erum líka að vinna í því að koma okkur betur fyrir í húsinu okkar. Það gengur rólega, en ég vona að það verði búið fyrir jól.
Jæja þá er ég nú búin að stikla á því helsta, frá því síðast.
Molinn kveður.